Nýjast á Local Suðurnes

Geely Group leggur 6 milljarða í CRI

Carbon Recycling International er hluti af Auðlindargarði HS Orku

Kínverska fjárfestingafélagið Geely Group hefur ákveðið að leggja 45,5 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 6 milljarða íslenskra króna, til hlutafjáraukningar í Carbon Recycling International (CRI). Áformin voru kynnt í Hörpu í dag. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins VB.is

„Fjárfestingin felst í upphaflegu framlagi og auknum framlögum síðar til kaupa á hlutum í CRI yfir þriggja ára tímabil. Geely Group verður meirihlutaeigandi í CRI og verður fyrir vikið með menn í stjórn félagsins,“ segir í tilkynningu.

Geely Group er stærsta fjárfestingasamstæða í Kína sem fjárfestir í bílaframleiðendum. Geely er meðal annars eigandi Volvo, London Taxi Company og framleiðir einnig bíla undir eigin merkjum sem eru seldir í 35 löndum víðsvegar um heim.

Starfsstöð Carbon Recycling International er í Svartsengi og markaðssetur fyrirtækið vörur sínar í Evrópu undir vörumerkinu Vulcanol. Því er blandað við bensín og notað í framleiðslu á lífeldsneyti og er hluti af Auðlindargarði HS Orku.