Nýjast á Local Suðurnes

Verslanir og veitingastaðir laga sig að breyttum aðstæðum – Meira um heimsendingar og take away

Verslanir og veitingastaðir á Suðurnesjum laga sig að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu og hafa aukið þjónustu sína á þann veg að veitingastaðir bjóða í auknum mæli upp á heimsendingar eða take away og verslanir upp á rýmri opnunartíma fyrir viðkvæmari hópa og eldra fólk.

Nokkrar verslanir Samkaupa og verslun Bónus á Fitjum opna til að mynda fyrr á daginn fyrir viðkvæma hópa og eldri borgara og verslunin Kostur tekur við pöntunum sem afgreiddar eru út í bíl til viðskiptavina, óski þeir þess.

Nokkrir veitingastaðir sem áður buðu ekki upp á heimsendingarþjónustu gera svo nú, þar má til að mynda nefna Issi Fish & Chips, Orange, Thai Keflavík og KEF Restaurant. Þá býður veitingastaðurinn Library upp á take away þjónustu og sömu sögu er að segja af Réttinum, sem hefur lokað matsalnum, en býður upp á heimilismat í hádeginu sem afgreiddur er í bökkum. Tjarnargrill í Innri Njarðvík afgreiðir nú mat eingöngu um bílalúgu, en þar er hægt að panta í gegnum síma og sækja í lúguna. Sömu sögu er að segja af Doddagrill í Garði, þar er nú eingöngu afgreitt í gegnum lúgu og viðskiptavinum er bent á að panta í gegnum síma og sækja svo. Þá býður söluturninn Ungó upp á þjónustu í gegnum lúgu, að venju, en þar á bæ hafa menn bætt við nokkrum spennandi “lúgutilboðum” sem vert er að kíkja á. Veitingastaðurinn Biryani Kebab við Hafnargötu býður nú upp á heimsendingarþjónustu og samkvæmt auglýsingu á Fésbókarsíðu ættu viðskiptavinir að fá matinn heimsendann á um 20 mínútum.

Veitingastaðirnir Subway og Sparro á Fitjum bjóða nú upp á heimsendingar á vörum sínum og þarf að hringja og panta hjá báðum stöðum. Heimsending er frí sé pantað fyrir yfir 5000 krónur, en kostar 1500 krónur sé pantað fyrir lægri upphæð. Þá hefur veitingastaðurinn Langbest á Ásbrú hafið heimsendingar á pizzum í samstarfi við A-Stöðina, eingöngu er hægt að panta og greiða í gegnum síma, 421 4777.

Eldum rétt sendir heim í flestum sveitarfélögum á Suðurnesjum og er gjaldið fyrir það 890 Kr. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu fyrirtækisins.

Fyrirtæki í Grindavík sem bjóða upp á að koma og sækja mat eða senda heim: Salthúsið, Hjá hölluPapa´s, síminn þar er 426-9955 og Aðal-braut býður upp á take away, síminn þar er  426-7222.

Veitingahúsið Röstin í Suðurnesjabæ býður upp á heimsendingar í Garði og Sandgerði á milli klukkan 18 og 21. Síminn þar er 893 8909.