Nýjast á Local Suðurnes

Vilja ræða við kennara sem hafa nýlega komið úr leyfi sem rekja má til kulnunar í starfi

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Frjáls afls og Miðflokksins villja leggjast í markvissa greiningarvinnu til að meta starfsaðstæður og umhverfi leik- og grunnskólakennara Reykjanesbæjar með það að markmiði að greina hvort óeðlilegt álag og kulnun sé til staðar.

Þetta kemur fram í bókun sem fulltrúar flokkana lögðu fram á bæjarstjórnarfundi í gær. Þar kemur einnig fram að fulltrúarnir vilji að leitast verði við að ræða við kennara sem látið hafa af störfum, eru í veikindaleyfi eða hafa nýlega komið úr leyfi sem rekja má til kulnunar eða streitu.

Bókunin í heild sinni:

„Trúnaðarmenn grunnskólanna á Suðurnesjum, þar á meðal í Reykjanesbæ, hafa ályktað að óeðlilegt álag og kulnun sé meðal kennara í Reykjanesbæ. Mikilvægt er að Reykjanesbær bregðist við þessu strax og af festu þar sem líðan kennara og gott starfsumhverfi skiptir sköpum til að tryggja að skólastarf sé sem farsælast bæði fyrir nemendur og kennara.

Við leggjum til að farið verði strax í markvissa greiningarvinnu til að meta starfsaðstæður og umhverfi leik- og grunnskólakennara Reykjanesbæjar með það að markmiði að greina hvort óeðlilegt álag og kulnun sé til staðar. Fundað verði með starfsfólki til að fara sérstaklega yfir þessi mál. Haldnar verði vinnustofur og viðtöl tekin við kennara. Einnig skal leitast við að ræða við kennara sem látið hafa af störfum, eru í veikindaleyfi eða hafa nýlega komið úr leyfi sem rekja má til kulnunar eða streitu. Kallað verði eftir upplýsingum frá þeim stofnunum og fagaðilum sem veitt geta upplýsingar um stöðu mála og öflugir sérfræðingar í þessum málum fengnir að borðinu. Skal niðurstaða úttektarinnar innihalda tímasettar tillögur að úrbótum.“