Púsluspil að taka þátt í stjórnmálum ásamt því að sinna fjölskyldu og vinnu
-Segir Davíð Páll Viðarsson, formaður Atvinnu- og hafnaráðs Reykjanesbæjar

Töluverð endurnýjun varð í bæjarpólitíkinni í Reykjanesbæ eftir að úrslit síðustu sveitarstjórnarkosninga lágu fyrir, fjölmargir einstaklingar komu nýjir inn í nefndir og ráð á vegum sveitarfélagsins eftir að Bein leið, Frjálst afl og Samfylkingin mynduðu nýjan meirihluta.
Local lék forvitni á að vita hvernig nýju fólki gengur að fóta sig á þessum vettvangi og leitaði svara hjá Davíð Páli Viðarssyni, vara bæjarfulltrúa sem bauð sig fram með Frjálsu afli.
Alltaf haft áhuga á pólitík
Davíð Páll er giftur, þriggja barna faðir og starfar sem þjónustustjóri hjá Flugflutnings- fyrirtækinu Cargo Express í Reykjavík, það getur því verið svolítið púsluspil að stunda nefndarstörf ásamt því að sinna vinnu og fjölskyldu:
„Ég er reyndar heppinn með það að flestir fundir sem ég sit eru seinnipart dags, sem hentar mér mjög vel.“ segir Davíð Páll.
Hann er formaður Atvinnu- og Hafnaráðs, stjórnarmaður í Dvalaheimili aldraðra á Suðurnesjum og varamaður í bæjarstjórn. „Það fer töluverður tími í undirbúning fyrir fundi, sérstaklega þegar um er að ræða stærri mál, en þá spýtir maður bara í lófana og leggur aðeins meira á sig,“ segir Davíð Páll
En afhverju skildi hann hafa ákveðið að henda sér út í djúpu laugina?
„Ég hef alltaf haft áhuga á pólitík, sérstaklega eftir að við fjölskyldan fluttum til Danmerkur í nám árið 2007 og maður fylgdist með samfélaginu hér úr fjarlægð, þá sá maður betur hvað var mikið að í bæjarfélaginu okkar og þá sérstaklega rekstrarlega séð, því ábyrgur rekstur er forsenda uppbyggingar hvort sem um sé að ræða fyrirtæki, bæjarfélag eða heimili.“
„Svo er það bara þannig að maður getur ekki endalaust verið á kantinum og verið að benda á hvað megi betur fara, ef maður vill sjá breytingar þá verður maður að taka þátt,“ segir Davíð Páll.
Kosningabaráttan var mikill skóli
Davíð Páll var stuðningsmaður Gunnars Þórarinsonar í eftirminnilegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar þar sem Gunnar hafnaði í 5. sæti en var svo boðið 7. sæti en Gunnar ákvað sem kunnugt er að taka ekki sæti á listanum. Úr varð að Gunnar stofnaði Frjálst afl ásamt Davíð Páli og fleiri stuðningsmönnum
„Þetta var þannig að menn voru ekki alveg sáttir við úrslit prófkjörsins, eða öllu heldur framkomu kjörnefndar. það var sest yfir málin og það má segja að eitt hafi leitt af öðru og við enduðum með fullan framboðslista af frábæru fólki,“ sagði Davíð Páll aðspurður um hvernig ævintýrið hafi byrjað.
Hann bætti við, „Kosningabaráttan sem tók við var síðan mikill skóli útaf fyrir sig, fyrir mann sem hafði ekki staðið í þessu áður, en þetta var mjög skemmtilegt og lærdómsríkt tímabil.“
Atvinnumálin verða að vera í lagi
Davíð Páll er markaðsfræðingur og það er greinilegt þegar rætt er við hann að atvinnumálin í Reykjanesbæ eru honum hugleikin.
„Tökum Gagnaver sem dæmi, þau eru ofmetinn iðnaður, þau skapa fá störf, og það sama má segja um ferðaþjónustuna, hún reyndar skapar mörg störf en þau eru árstíðarbundin og launin eru í lægri kantinum, ég er þeirrar skoðunar að ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi sé enn of lítill eining.“ Segir Davíð Páll
„Ef við tökum t.a.m rekstur á bílaleigum á Íslandi. Af 12 stærstu bílaleigum eru 6 af þeim reknar með tapi. Hinar 6 eru að meðaltali með 4,2% eigin fjárstöðu. Sem segir manni að annaðhvort eru verðin of lág, eða magnið of lítið til að búa til hagræðni í rekstrinum. Svona er þetta í fleiri greinum innan ferðaþjónustunar. En ef spár munu ganga eftir um aukningu ferðamanna þá mun verða mikil aukning á næstu árum í þessari grein og því ber að fagna.“
„Þegar öllu er á botninn hvolft þá verða atvinnumálin í sveitarfélaginu að vera í lagi, þetta snýst allt um að Jón og Gunna hafi í sig og á og geti lifað mannsæmandi lífi, þetta snýst ekki bara um að selja rafmagn á háu verði, heldur raunveruleg störf fyrir fólk sem skapar verðmæti, þannig aukum við hagvöxt hér á svæðinu. Áherslurnar í atvinnumálum verða að vera réttar, okkur vantar betur launuð störf. Það er ekki hægt að halda úti velferð án atvinnu“ Segir Davíð Páll
Meirihlutasamstarfið gengur vel
Það er ekki hægt að sleppa Davíð Páli án þess að spyrja út í meirihlutasamstarf Samfylkingar, Frjáls afls og Beinnar leiðar:
„Samstarfið gengur vel, menn takast á og hafa mismunandi skoðanir á málunum en það er bara af hinu góða,“ sagði Davíð Páll Viðarsson að lokum.