Nýjast á Local Suðurnes

Miklar hagræðingaraðgerðir framundan hjá Reykjanesbæ

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að fela bæjarstjóra og framkvæmdastjórn að fara, í samráði við stjórnendur og starfsmenn allra stofnana og deilda, ítarlega í gegnum alla starfsemi Reykjanesbæjar með það að markmiði að leita tækifæra til sparnaðar og hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins.

Þetta kom fram á fundi ráðsins í gær. Ráðið vill að stjórnendur fari yfir tilgang, markmið og samfélagslegan ávinning af starfsemi allra eininga, hvernig sá ávinningur birtist, hvernig hann er metinn og hvort og þá til hvaða hagræðingaraðgerða megi grípa án alvarlegra afleiðinga fyrir íbúa. Einnig að tilgreina á grundvelli hvaða lagaákvæða viðkomandi starfsemi byggir, segir í bókun ráðsins.

Þá segir að þar sem um er að ræða starfsemi sem ekki er lögboðin er stjórnendum falið að meta og rökstyðja hvort og þá hvers vegna nauðsynlegt sé að halda starfseminni áfram óbreyttri, hvort hægt sé að draga saman eða hætta henni alveg og hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Einnig er stjórnendum falið að leita leiða til að auka skilvirkni með það að markmiði að bæta þjónustu, stytta ferla og lækka kostnað.

Þá fól ráðið bæjarstjóra að leiða vinnu við að fara yfir allt húsnæði í eigu Reykjanesbæjar með það að markmiði að nýta það betur og selja eða leigja það húsnæði sem sveitarfélagið hefur ekki not fyrir.