Nýjast á Local Suðurnes

Stjórnarformenn Kölku og Sorpu undirrita viljayfirlýsingu vegna sameiningar

Undanfarin misseri hafa staðið yfir viðræður milli Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja (SS) og Sorpu um mögulega sameiningu fyrirtækjanna, en í ljósi þeirrar lagaskyldu sem hvílir á sveitarfélögum að annast að mestum hluta meðhöndlun og förgun úrgangs, sjá stjórnir félaganna mikla hagkvæmni í því að sameinast um lausnir eins og kostur er.

Stjórnir félaganna hafa meðal annars það hlutverk að móta framtíðarstefnu í úrgangsmálum í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og af því tilefni samþykktu stjórnir SS og Sorpu eftirfarandi viljayfirlýsingu sem Birgir Már Bragason stjórnarformaður SS og Halldór Auðar Svansson stjórnarformaður Sorpu undirrituðu hinn 22. mars 2018:

„Kröfur er varða meðferð úrgangs verða sífellt flóknari og strangari. Því er mikilvægt að stöðugt sé leitað hagkvæmra og umhverfisvænna leiða við meðhöndlun úrgangs.

Úrgangur er málefni allra og því nauðsynlegt að aðilar sem sinna úrgangsmálum á vegum sveitarfélaganna og sinna þar með lagaskyldu, sameinist um lausnir eins og kostur er.

Þannig verði hámarks hagkvæmni náð um leið og sem minnst umhverfisleg áhrif úrgangsmeðhöndlunar verða betur tryggð. Stjórnir SORPU bs. og Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf., lýsa þess vegna yfir ríkum vilja til að vinna enn frekar að sameiningarmálum þessara félaga með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi“