Búist við stormi syðst á landinu í nótt

Lægð nálgast landið úr suðvestri í dag með stífri austanátt og slyddu eða rigningu sunnan- og vestanlands síðdegis, segir á vef Veðurstofu Íslands.
„Lægðin fer norðaustur yfir landið í nótt með allhvassri norðvestanátt og éljum. Um tíma í nótt má búast við vestan stormi syðst á landinu. Dregur hægt úr vindi og éljum á morgun, en bætir aftur í vind og úrkomu suðvestan til annað kvöld. Fremur milt í dag, en kólnar á morgun. Víða frost annað kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Veðurspáin fyrir næsta sólarhring er annars svohljóðandi:
Suðvestan 8-13 m/s. Slydda eða rigning öðru hverju, en léttskýjað fyrir austan. Úrkomuminna með morgninum. Gengur í austan 8-15 með rigningu eða slyddu sunnan- og vestanlands síðdegis, en snjókomu norðan til í kvöld. Heldur hvassara allra syðst. Vestanhvassviðri sunnan til á landinu í nótt og skúrir eða él, en 20-25 m/s allra syðst. Stíf norðanátt og él um landið norðanvert seint í nótt. Minnkandi vestlæg á morgun og dregur úr éljum, 8-15 síðdegis. Suðvestan hvassviðri og snjókoma um landið suðvestanvert annað kvöld. Hiti 0 til 7 stig í dag, en hiti um og yfir frostmarki á morgun, en frystir víða annað kvöld.
Á þriðjudag:
Vestan 8-15 m/s og él, þó síst A-lands. Hiti 0 til 4 stig við ströndina, en vægt frost inn til landsins.
Á miðvikudag:
Minnkandi suðvestanátt og dálítil él, en léttskýjað á N- og A-landi. Snýst í norðaustanátt með snjókomu S- og SA-lands um kvöldið. Hiti breytist lítið.
Á fimmtudag:
Norðaustan 8-15 m/s og snjókoma eða él, en hægari og úrkomulítið S-til á landinu. Kólnandi veður.
Á föstudag:
Suðaustlæg átt og él á víð og dreif. Kalt í veðri.
Á laugardag:
Austan- og norðaustanátt, víða él og vægt frost, en slydda við suðurströndina og hiti um og yfir frostmarki.
Á sunnudag:
Útlit fyrir norðaustanátt. Dálítil él og kólnandi veður.