Nýjast á Local Suðurnes

Snjókoma og vindasamt á morgun – Ekkert ferðaveður

Mynd: Björgunarsveitin Þorbjörn

Veðurstofan gerir ráð fyrir afar slæmu veðri Suðvest­an- og Vest­an­lands á morg­un, mánudag. Á Suðvestanverðu landinu gengur í suðaustan 15-23 undir hádegi á morgun með snjókomu eða slyddu og síðar rigningu, segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Vindur mun svo snúast í vestan 5-10 seint annað kvöld. Vægt frost í nótt, en hiti 2 til 6 stig á morgun.

Vegagerðin bendir á að lítið skyggni verði á helstu heiðum landsins, en á Hellisheiði má búast við að veður verði slæmt upp úr klukkan 9 og á Holtavörðuheiði um klukkan 16. Þá verður bálhvasst undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi frá um kl.14 og er reiknað með hviðum allt að 35-40 m/s.  Vindur verður í hámarki um kl. 18. Eins á norðanverðu Snæfellsnesi.

Á þriðjudag:
Suðvestan 5-10 og él. Þykknar upp með rigningu eða slyddu vestantil um kvöldið, en léttir til austanlands. Hiti 1 til 7 stig, mildast suðaustanlands.

Á miðvikudag:
Allhvöss sunnanátt, rigning og hiti 4 til 10 stig, en þurrt að mestu austanlands. Snýst í allhvassa suðvestanátt með hvössum éljum og kólnandi veðri um landið vestanvert eftir hádegið.

Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti):
Vestan- og norðvestanátt með skúrum eða éljum, einkum norðantil. Frost 0 til 5 stig um landið norðanvert, en hiti 0 tl 5 stig sunnantil.

Á föstudag:
Fremur svöl norðvestanátt með dálitlum éljum um landið norðanvert, en lengst af bjartviðri syðra.

Á laugardag:
Útlit fyrir hæglætisveður með stöku éljum við norður- og austurströndina, en að þykkni upp suðvestantil með kvöldinu.