Nýjast á Local Suðurnes

Almannavarnir vara við mjög slæmu veðri laugardaginn 12. mars

Veðurstofa Íslands vill vekja athygli á að spáð er mjög slæmu veðri um allt land á morgun, laugardaginn 12. mars og eru vegfarendur eru beðnir um að fylgjast vel með veðurspám og ástandi vega á morgun.

Búast má við suðaustan stormi í nótt og í fyrramálið en suðvestan stormi eftir hádegi á morgun. Á vef Veðurstofunnar kemur fram að hvöss suðvestanáttin sé enn við völd enn sem komið er og að búast megi við hryðjuveðri víða á sunnan og vestanverðu landinu fram eftir degi á morgun.

Í tilkynningu frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra segir meðal annars:

Í kvöld og nótt nálgast mjög kröpp og djúp lægð landið sunnan úr hafi. Lægðinni fylgir suðaustanhvassviðri eða -stormur með talsverðri slyddu eða rigningu í nótt og fyrramálið, einkum suðaustanlands. Síðan snýst í suðvestanstorm eða -rok með éljagangi, jafnvel ofsaveðri norðvestan til.

Veðurhorfur á landinu um helgina:

Suðvestan 13-20 metrar á sekúndu og él en 10-18 metrar og þurrt að kalla norðaustanlands. Kólnandi veður. Lægir og dregur heldur úr éljum síðdegis en snýst í suðaustan 8-15 metra á sekúndu með slyddu og síðan rigningu sunnan og suðaustantil í kvöld.

Suðaustan 15-23 metrar á sekúndu og rigning í nótt og fyrramálið en snýst í suðvestan 15-25 metra á sekúndu með éljum síðdegis á morgun, hvassast vestanlands en þurrt að kalla á Norðurlandi. Dregur úr vindi sunnan til undir kvöld á morgun. Hiti um frostmark en hlýnar í nótt. Kólnar aftur seint á morgun.

Á sunnudag:
Sunnan 15-23 metrar á sekúndu með talsverðri eða mikilli rigningu og hlýindum, en áfram þurrt að kalla norðaustan til. Hiti 4 til 10 stig.