Nýjast á Local Suðurnes

Niðurstaða prófkjörsins ekki bindandi – Ólíklegt að breytingar verði gerðar í Suðurkjördæmi

Samkvæmt niðurstöðum úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi eru tvær þingkonur flokksins ekki meðal þriggja efstu.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sóttist eftir því að leiða lista flokksins áfram en endaði í fjórða sæti. Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður stefndi á annað sætið sem hún skipaði fyrir síðustu kosningar en mun nú vera í fimmta sæti. Svipaða sögu er að segja úr prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi, en þar skipa karlar fjögur efstu sæti listans.

Í tilkynningu sem framkvæmdastjórn Landsambands sjálfstæðiskvenna sendi frá sér eftir að úrslit voru ljós í Suðvesturkjördæmi, og vitnað er í á Vísi.is, kemur fram að prófkjörsreglur Sjálfstæðisflokksins séu skýrar. Þar sé kveðið á um að kosning sé ekki bindandi nema kjörsókn sé 50%. Kjörsókn náði ekki 50%, hvorki í Suður- né Suðvesturkjördæmi. Rúmlega 4.000 manns kusu í Suðurkjördæmi, sem gerir rétt rúmlega 45% kjörsókn.

Liklegt er talið að breytingar verði gerðar á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvestukjördæmi, en heimildir Suðurnes.net herma að ólíklegt sé að breytingar verði gerðar á listanum í Suðurkjördæmi, þrátt fyrir að engin kona sé í þremur efstu sætunum.