Nýjast á Local Suðurnes

Nemendur Keilis geta látið reyna á færni sína í fullkomnum flughermi

Flugakademía Keilis hefur samið við TRU Flig­ht Train­ing Ice­land um aðgang að flughermi félagsins fyrir þjálfun atvinnuflugmannsnemenda skólans í áhafnarsamstarfi (MCC). Þjálfunin fer fram í fullkomnasta flughermi á landinu sem er staðsettur á Flugvöllum í Hafnarfirði og nýtist meðal annars við þjálfun flugmanna Icelandair.

Flughermirinn er af gerðinni B757 “Level D” og er rekinn af fyrirtækinu TRU Simulation and Training og er hann nákvæm eftirlíking af stjórnklefa Boeing 757 flugvélar eins og Icelandair notar í sínum flugrekstri. Í flugherminum er hægt að kalla fram öll helstu landsvæði í heiminum í gegnum gagnagrunn sem heldur utan um alla grafík sem birtast á fullkomnum myndvörpum. Hægt er að kalla fram öll helstu veðurskilyrði, stilla inn krefjandi aðstæður og ókyrrð, auk þess sem líkja má eftir helstu bilunum sem geta komið upp á en með því geta flugmenn látið reyna á færni sína.

keilir flughermir

Þrautreyndir flugmenn munu koma að þjálfun nemenda í áhafnarsamstarfinu, meðal annars Kári Kárason (þjálfunarflugstjóri hjá Icelandair), Arnar Már Baldvinsson (flugstjóri hjá Icelandair), Arnar Jökull Agnarsson (flugstjóri hjá Icelandair), Tómas Beck (flugmaður hjá Icelandair) og Friðrik Ólafsson (flugstjóri hjá WOW air).

Snorri Páll Snorrason, skólastjóri Flugakademíu Keilis og Guðmund­ur Örn Gunn­ars­son, fram­kvæmda­stjóri TRU Flig­ht Train­ing Ice­land, skrifuðu undir samninginn 20. nóvember síðastliðinn. Við það tækifæri gafst nemendum í atvinnuflugmannsnámi Keilis kostur á að skoða flugherminn og húsakynni TRU, ásamt því að fá upplýsingar um fyrirkomulag námsins. Metfjöldi nemenda stundar nú nám við Flugakademíu Keilis og mun samningurinn þýða að nemendur skólans geta sótt enn fjölbreyttari þjálfun í fullkomnasta tækjabúnaði á landinu.