Böðvar með tölfræðina á tæru – Guðbrandur kom af fjöllum

Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar sat í gær sinn 200. fund í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og fékk af því tilefni afhentan blómvönd frá stjórninni. Það var Magnea Guðmundsdóttir annar varaforeti bæjarstjórnar sem afhenti Guðbrandi blómin og rakti feril hans í stuttu máli.
Upplýsingar um fundarsetu Guðbrands komu frá Böðvari Jónssyni sem hefur verið ötull við að halda utan um tölfræðilegar upplýsingar úr bæjarpólitíkinni sem Guðbrandur þakkaði, þegar hann tók við blómvendinum, þá hafði hann orð á því að hann hafi ekki vitað af því að fundirnir væru orðnir þetta margir.
Guðbrandur sat sinn fyrsta fund í bæjarstjórn Reykjanesbæjar 5. júní 2001, sem fulltrúi Alþýðuflokksins. Hann var aðalmaður í bæjarstjórn á átta ára tímabili, frá 2002 til 2010 og svo aftur frá 2014 þegar hann kom inn sem fulltrúi Beinnar leiðar. Guðbrandur er eini bæjarfulltrúinn sem hefur átt afturkvæmt í bæjarstjórn eftir fjarveru eitt kjörtímabil, 2010 til 2014. Guðbrandur hefur verið forseti bæjarstjórnar frá miðju ári 2015.
Guðbrandur er hér með kominn í hóp þeirra bæjarfulltrúa sem hafa setið 200 fundi eða fleiri. Hinir eru Sveindís Valdimarsdóttir, Jóhann Geirdal, Ólafur Thordersen, Árni Sigfússon, Þorsteinn Erlingsson, Björk Guðjónsdóttir og Böðvar Jónsson, sem á metið í fundarsetu í bæjarstjórn, en hann hefur setið vel yfir 400 fundi, Guðbrandur á því töluvert í langt í land ætli hann að ná Böðvari í fundarsetu.