Nýjast á Local Suðurnes

Allir með! hefst í dag

Stórt samfélagsverkefni sem ber heitið Allir með! fer af stað í dag og mikilvægt er að allir bæjarbúar taki virkan þátt svo verkefnið heppnist vel. 

Reykjanesbær hefur sett sér það markmið að vera fjölskylduvænn bær sem þroskar og nærir hæfileika allra í gegnum skóla-, íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf. Allir með verkefnið stuðlar að jöfnum tækifærum barna til þess að tilheyra samfélaginu. Lagt er upp með að öll börn séu í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi ásamt því að allir sem starfi með börnum vinni að vellíðan þeirra með skipulögðum hætti. Þetta er gert þar sem allt bendir til þess að samfélagsleg virkni leiði til betri líðanar, jákvæðari samskipta, sterkari félagsfærni og þess að fólk sé hluti af samfélagsheildinni. Verkefnið er styrkt af félagsmálaráðuneytinu. 

Allir sem vinna með grunnskólabörnum fá fræðslu og þjálfun 

Reykjanesbær mun því veita umsjónarkennurum á miðstigi hagnýtt námskeið, einnig kennurum í íslensku sem öðru máli og forstöðumönnum frístundaheimila. Settar verða upp vinnustofur fyrir alla sem koma að barnastarfi í sveitarfélaginu, hvort sem um er að ræða danskennara, skátaforingja, skólaliða eða barnaverndarstarfsmann og allt þar á milli. Þar að auki verða haldnir nokkrir fyrirlestrar fyrir starfsmenn sveitarfélagsins og félag foreldrafélaga í Reykjanesbæ.  Í heildina munu hátt í 6.000 einstaklingar, frá um 60 mismunandi starfsstöðum, fá fræðslu, þjálfun og menntun í gegnum verkefnið . KVAN mun sjá um fræðsluna en fyrirtækið hefur sérhæft sig í að styðja við fólk til að virkja það sem í þeim býr og veita þeim aðgengi að styrkleikum sínum, auk þess hefur KVAN unnið mikið með vináttuþjálfun barna og fjallað um mikilvægi þess að tilheyra samfélaginu. 

Jafningjafræðsla og leiðtogaþjálfun 

Salka Sól Eyfeld í samvinnu við KVAN munu leiða leiðtogafræðslu og þjálfun fyrir nemendur 9. bekkjar í öllum sjö grunnskólum sveitarfélagsins. Nemendum er í framhaldi gefinn kostur á að gerast leiðtogar fyrir yngri nemendur og vera þeim jákvæð fyrirmynd. 

Skipulagt íþrótta- og tómstundastarf 

Ungmennafélögin tvö, Keflavík og Njarðvík munu leiða verkefnið áfram, halda utan um allar upplýsingar og tengja önnur íþróttafélög og tómstundahreyfinguna inn í verkefnið. Félögin munu jafnframt stýra spennandi kynningum á öllu íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu sem ekki fara fram hjá neinum þegar þar að kemur. Ungmennafélag Íslands hefur einnig gerst aðili að verkefninu og mun ljá því stoð og styrk.

Stöndum saman og skrifum undir Allir með Sáttmálann. 

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn! Til að markmið verkefnisins nái fram að ganga þurfa allir að vera með í Allir með! Það er á ábyrgð allra að huga vel að sjálfum sér og þeim sem í kringum þá eru. Reykjanesbær býður öllum íbúum að gerast þátttakendur í verkefninu og verða aðilar að Allir með! Sáttmálanum. Með sáttmálanum er lögð áhersla á hlýlegt viðmót og alúð gagnvart fjölskyldu, vinum, samstarfsfélögum, nágrönnum og öðru samferðafólki óháð kyni, aldri, uppruna, fötlun, kynhneigð, skoðunum eða trúarbrögðum. Það er mikilvægt að öllum líði vel og að við séum öll hluti af samfélagsheildinni. 

Með því að skrifa undir Allir með sáttmálann einsetur fólk sér að leggja sig sérstaklega fram um að: 

  • Bera virðingu fyrir fólki og taka tillit til annarra. 
  • Einblína á það jákvæða og góða í samferðafólki sínu. 
  • Styðja sérstaklega þá sem reynist það meiri áskorun en öðrum að taka þátt í samfélaginu. 
  • Láta sig aðra varða og gefa þeim tækifæri til þess að vera hluti af samfélagsheildinni. 
  • Rækta jákvæð tengsl við fjölskyldu, vini, samstarfsfólk og nágranna og stuðla þannig að eigin hamingju og vellíðan, sem og annarra.