Nýjast á Local Suðurnes

Bátalíkön Gríms til sýnis á ný

Byggðasafn Reykjanesbæjar hefur opnað endurgerða sýningu á bátalíkönum Gríms Karlssonar í Bryggjuhúsinu. Bátafloti Gríms Karlssonar var fyrsta sýningin sem opnuð var í Duus Safnahúsum fyrir nærri 20 árum og fær nú endurnýjun lífdaga í rými sem skapar áhugaverða umgjörð um bátalíkönin.

Á nýju sýningunni gefur að líta nánast öll módel Gríms í eigu Byggðasafnsins, sem eru alls 136. Jafnframt verða líkönin nýtt til að segja sögu vélbátaútgerðar í Keflavík og Njarðvík, fjallað verður um hafnargerð, skipasmíðar, veiðar og annað er tengist útgerðinni. Þá mun sýningargestum gefast kostur á því að taka í stýrið innan í endurgerðu stýrishúsi og skut í raunstærð á minni gerð vélbáta. Sýningunni er ætlað að gefa gestum innsýn í þennan mikilvæga þátt í atvinnulífi Reykjaness, þar sem allt snerist í aldir og áratugi um fiskveiðar. Þá er upplifun í sjálfu sér að skoða einstakan bátaflota Gríms í nýrri uppsetningu.