Nýjast á Local Suðurnes

Ungmenni í Reykjanesbæ ósátt við samgöngumál – Funduðu með bæjarstjórn

Fimm meðlimir í Ungmennaráði Reykjanesbæjar héldu ræður á fundi með bæjarstjórn Reykjanesbæjar þriðjudaginn 18. október síðastliðinn. Samgöngumál voru þeim hugleikin, en öll voru þau sammála um að samgöngumál sveitarfélagsins séu í lamasessi og af þeim sökum geti ungmenni ekki nýtt almenningssamgöngur til íþrótta- og tómstundastarfs.

Fulltrúi nemenda í Akurskóla lagði fram ósk eftir fjármagni til að byggja upp félagsmiðstöð innan veggja grunnskólans. Fulltrúi nemenda í Myllubakkaskóla ræddi um mikilvægi þess að opna bókhald bæjarins og umhverfismál voru henni hugleikin og hvatti hún til flokkunar á sorpi. Þá var lögreglunni á Suðurnesjum hrósað sérstaklega fyrir umferðarátak við grunnskólana og sýnileika þeirra.

Berglín Sólbrá Bergsdóttir formaður Ungmennaráðs og fulltrúi Fjölbrautaskóla Suðurnesja hrósaði bæjarstjórn fyrir alla fræðsluna sem boðið var upp á að loknum síðasta fundi með bæjarstjórninni, en fræðslumálin voru aðalmálin hjá ráðinu er síðasti fundur fór fram. Berglín mun taka þátt í nýrri nefnd fyrir ungmenni á vegum menntamálaráðuneytisins og er nefndinni ætlað að vera til ráðgjafar um málefni ráðuneytisins.

Fyrir skemmstu tók ungmennaráð Reykjanesbæjar þátt í fræðsludegi ungmennaráða á Suðurnesjum sem fór fram í Fjörheimum. Þar æfðu ungmennin ræðumennsku, framkomu, skipulagningu og fengu fyrirlestur um hvaða hluti þarf að hafa í huga til að ná árangri í lífinu.