Nýjast á Local Suðurnes

Grindavíkurbær fær vilyrði fyrir ljósneti

Grindavíkurbær hefur fengið hefur vilyrði fyrir styrk til að bæta netsamband utan þéttbýlis með lagningu ljósleiðara. Áætlaður kostnaður við verkefnið er er 24 milljónir króna og gæti hlutdeild Grindavíkurbæjar í því orðið tæplega 8 milljónir króna.

Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi sínum í gær og samþykkti að taka þátt í verkefninu á grundvelli fyrirliggjandi kostnaðaráætlunar. Sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs var falið að leggja drög að gjaldskrá vegna tenginga fyrir bæjarráð.

Ísland ljóstengt er átaksverkefni stjórnvalda um byltingu í bættum fjarskiptum. Í fjárlögum fyrir árið 2016, sem var fyrsta ár í umræddu verkefni, var um 450 milljónum króna varið í að tengja ljósleiðara inn á heimili og fyrirtæki  í dreifbýli, auk 300 milljóna sem voru í fjárlögum 2015 og ætlað var til stuðnings við að byggja hringtengingar.

Mikill kraftur var settur í verkefnið á þessu fyrsta ári af fjórum sem gert er ráð fyrir að það taki að ljóstengja landið, en um þriðjungur af ótengdum stöðum kláraðist á fyrsta ári.