Nýjast á Local Suðurnes

Foreldri réðst á 10 ára gamlan leikmann Njarðvíkur

Atvikið átti sér stað að Ásvöllum í Hafnarfirði

Það óvenjulega atvik átti sér stað í leik Vals og Njarðvíkur á mini-boltamóti í körfuknattleik að Ásvöllum í Hafnarfirði á laugardag að foreldri eins iðkanda óð inn á völlinn og réðst á leikmann í liði Njarðvíkur.

Gerandinn mun vera karlmaður um fimmtugt, faðir drengs í Valsliðinu í þessum aldursflokki, segir í frétt DV af málinu. Þar kemur fram að maðurinn hafi ráðist að leikmannni í liði Njarðvíkur, ýtt við honum og slegið hann í höfuðið. Í frétt DV kemur einnig fram að mikið uppnám hafi orðið í húsinu.

Körfuknattleiksdeild Vals sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar fréttarinnar þar sem fram kemur að félagið harmi og fordæmi umrædda hegðun og að málið sé litið alvarlegum augum. Þá hefur Kkd. Vals verið í sambandi við þolandann og foreldra hans og komið á framfæri afsökunarbeiðni.

Yfirlýsing Vals vegna málsins er hér orðrétt:

Til þeirra er málið varðar.

 Í ljósi atviks sem átti sér stað á minniboltamóti að Ásvöllum í Hafnarfirði í dag, laugardaginn 28. apríl vill Valur koma eftirfarandi á framfæri.

Valur harmar og fordæmir þá hegðun sem foreldri iðkanda félagsins sýndi af sér og er hún með engu móti ásættanleg og með öllu ólíðandi. Félagið lítur málið mjög alvarlegum augum og mun verða tekið á því með hlutaðkomandi aðilum.

 Valur vill koma á framfæri formlegri afsökunarbeiðni til iðkandans auk allra þeirra sem að mótinu komu.