Nýjast á Local Suðurnes

Landsbankinn: Uppsögn Guðmundar hluti af breytingum – Fækkað um 20 á fimm árum

Einum starfsmanni var sagt upp í hagræðingarskyni hjá Landsbankanum í síðustu viku, umræddur starfsmaður, Guðmundur Ingibersson hafði starfað hjá bankanum og forvera hans, Sparisjóðnum í Keflavík, í um 30 ár.

DV.is greinir frá því að forsaga málsins sé sú að Guðmundur hafi lent í slysi um síðustu páska. Þá var bifreið ekið inn í forstofu heimils móður Guðmundar. Guðmundur var staddur fyrir innan og fékk hann hurð yfir sig. Við það brotnaði hann og skarst illa á hendi. Guðmundur var frá vinnu í fimm mánuði eftir slysið. Hann snéri aftur til vinnu í september og starfaði hjá Landsbankanum þar til hann fékk starfslokasamning þann 18. janúar síðastliðinn.

Guðmundur staðfesti við DV að hann hefði fengið þau skilaboð að ef hann myndi ekki samþykkja umræddan starfslokasamning yrði honum sagt upp. Hann segir að uppsögnin hafi verið vegna „hagræðingar“ að sögn yfirmanna hans og minnst hefði verið á tiltekt í bankanum í starfslokasamningnum.

Heimsóknum í útibú fækkar ört – Um 20 manns verið sagt upp á 5 árum

DV birtir á vef sínum yfirlýsingu frá Landsbankanum vegna málsins:

Á undanförnum árum hefur heimsóknum í útibú fækkað ört því um 80% allra bankaviðskipta eru nú rafræn. Landsbankinn hefur þurft að mæta þessum breyttu aðstæðum með því að fækka starfsmönnum í útibúum út um allt land.

Til dæmis hefur starfsfólki í útibúinu í Reykjanesbæ fækkað úr 52 í 33 á undanförnum fimm árum. Uppsögn starfsmannsins sem um ræðir, er hluti af þessum breytingum. Að öðru leyti getur Landsbankinn ekki tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna.