Ætluðu til útlanda en enduðu í fangaklefa
Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum sjö dögum sinnt sex útköllum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna ölvunarástands og óspekta flugfarþega.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum segir af nokkrum farþegum sem hafa lent í vandræðum undanfarna daga. Í gær var ölvuðum farþega neitað um að fara í flug til Varsjár þar sem hann hafði verið að angra farþega í flugvél sem hann kom með hingað til lands.
Í fyrradag hafði lögregla afskipti af öðrum flugfarþega sem lét öllum illum látum við afgreiðsluhlið í flugstöðinni. Sá ætlaði til Las Palmas en fékk ekki að fara um borð í vélina vegna ástands síns. Hann brást afar illa við afskiptum lögreglu svo handtaka varð hann og færa á lögreglustöð, þar sem hann var vistaður í fangaklefa. Í gær var lögregla enn kölluð í flugstöðina. Var þar kominn sami aðili, enn ölvaður, og nú með leiðindi við fólk sem á vegi hans varð. Hann var handtekinn aftur og færður í fangaklefa enn á ný.
Tveir farþegar til viðbótar, sem voru á leið til Bandaríkjanna voru svo illa á sig komnir að ekki þótti stætt á að hleypa þeim um borð fyrr en þeir hefðu sofið úr sér.
Loks datt ölvaður farþegi, sem kom frá Washington á leið til Stokkhólms, í gólfið í flugstöðinni og skarst lítillega í andliti. Gert var að sárum viðkomandi sem fékk ekki að halda ferð sinni áfram að svo stöddu, heldur lá leiðin í fangaklefa um sinn.