Nýjast á Local Suðurnes

Elektrónísk Ljósanæturhelgi á Paddy´s – Vök og Trilogia halda tónleika

Ljósanæturtónleikar Vök á Paddy’s slógu vel í gegn á síðasta ári og komust færri að en vildu, leikurinn verður því endurtekinn þann 1. september næstkomandi. Þá mun hljómsveitin Trilogia stíga á stokk á sama stað þann 2. september – Frítt verður á þá tónleika.

Vök vakti fyrst athygli þegar hún sigraði Músíktilraunir árið 2013. Hljómsveitin spilar draumkennda, elektróníska popptónlist með indie áhrifum. Það er mikið um að vera hjá Vök þessa dagana en sveitin gaf nýlega út lagið Waiting og fylgdu þau útgáfunni eftir með sinni fyrstu tónleikaferð um Evrópu þar sem þau komu fram á 24 tónleikum í 9 löndum á rúmum mánuði. Sumarið mun Vök nýta í upptökur á sinni fyrstu breiðskífu auk þess að spila á hinum ýmsu tónlistarhátíðum í Evrópu.

Hér fyrir neðan má sjá tónlistarmyndbönd frá Vök og Trilogiu.

Tónleikarnir hjá Vök hefjast kl 21:00 og er aðgangseyrir 1.500 krónur.

Tónleikar Trilogiu hefjast klukkan 22 og er frítt inn.