Nýjast á Local Suðurnes

Viðvörunarskilti sett upp við Reykjanesbraut

Í gær voru sett upp tvö skilti við Reykjanesbraut sem vara ökumenn við hættulegum vegakafla þar sem mörg banaslys hafa orðið. Annað skiltið var sett upp við Fitjar og hitt á leiðinni upp við Rósaselshringtorg við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Skiltin voru sett upp af meðlimum Facebook-hópsins “Stopp-Hingað og ekki lengra!” Sem stofnaður var í kjölfar banaslyss sem varð á mótum Reykjanesbrautar og Hafnavegar þann 7. júlí síðastliðinn. Markmið hópsins er að þrýsta á stjórnvöld að klára tvöföldun Reykjanesbrautar, frá Hafnarfirði til Keflavíkurflugvallar, en sú framkvæmd er ekki á samgönguáætlun, sem gildir til ársins 2018.

Á vef Rúv segir Atli Már Gylfason, einn af forsvarsmönnum hópsins að skiltin hafi verið sett upp, þrátt fyrir að tilskilin leyfi hafi ekki verið fengin.

„Meðan beðið er aðgerða af hálfu vegagerðarinnar og ríkissins ætlum við að koma þessum skiltum upp,“ segir Atli Már Gylfason, sem er einn af rúmlega 16 þúsund meðlimum Facebook-hópsins. „Þetta er það minnsta sem við getum gert til að byrja með“.