Nýjast á Local Suðurnes

Guðbrandur situr hjá – “Fengið yfir okkur dembur af ýmsu tagi”

Guðbrandur Einarsson er til hægri á myndinni

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu þingsins um hvernig skuli afgreiða kjörbréf sem Landskjörstjórn hefur gefið út. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins sem mynda meirihuta í kjörnefnd leggja til að öll kjörbréf verði samþykkt. Yfirlýsing sem Guðbrandur birti á Facebook vegna málsins má sjá í heild hér fyrir neðan:

Ég hef ákveðið að að sitja hjá

Á morgun ræðst hvort kjörbréf þeirra þingmanna sem lentu í svokallaðri hringekju verða samþykkt eða hvort boðað verði til uppskosningar í Norðvestur kjördæmi. Það gæti síðan haft veruleg áhrif á niðurstöðu kosninganna þann 25. september ef til uppkosningar kemur.
Ég er einn af þessum aðilum sem lenti í hringekjunni og ákvað þess vegna að setja kjörbréfið mitt ofan í skúffu og bíða endanlegrar niðurstöðu sem gæti orðið á morgun ef kjörbréf sem gefin voru út eftir endurtalningu verða staðfest.

Eftir að hafa fallið út árla morguns var ekkert annað sem beið mín en að taka niðurstöðunni eins og maður og halda áfram við fyrri verk. Það kom síðan í ljós eftir endurtalningu, að atkvæði Viðreisnar í NV voru oftalin sem gerði það að verkum að ég datt aftur inn og í framhaldi af því fór í gang í þessi svokallaða hringekja, fimm jöfnunarmenn duttu út og aðrir fimm komu inn í staðinn.

Undirbúningskjörbréfanefnd hefur í þrígang farið í Borgarnes í þeirri tilraun sinni að leiða mál til lykta og skv. greinargerð nefndarinnar sem nú hefur litið dagsins ljós er ekkert að finna sem leiðir til ógildingar að mínu mati.
Ég er og hef verið þeirrar skoðunar að yfirfarin endurtalning sýni endanlega niðurstöðu og hef lýst því yfir að ég muni greiða atkvæði með seinni talningu. Hins vegar er öllum ljóst að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við talningu og varðveislu gagna eru óafsakanleg og úr því verður að bæta.

Bæði ég og vinur minn og flokksbróðir Guðmundur Gunnarsson höfum fengið yfir okkur dembur af ýmsu tagi vegna þessarar stöðu og það var svo sem viðbúið í jafn fordæmalausum aðstæðum og nú eru uppi. Það er enginn ánægður og mörgum líður illa.

Ég hef þess vegna og þrátt fyrir afstöðu mína, tekið þá ákvörðun að sitja hjá við afgreiðslu málsins á morgun og eftirláta öðrum þingmönnum ákvörðunarvald í málinu.

Það verður að vera hafið yfir allan vafa að persónulegir hagsmunir mínir ráði því hvernig ég greiði atkvæði.