Nýjast á Local Suðurnes

Samræmum þjónustuna við vinnutíma foreldra

Samfelldur vinnudagur barna þar sem margvíslegt tómstundastarf er sjálfsagður hluti er lykilatriðið í að auka samverustundir fjölskyldunnar þegar vinnudegi er lokið. Við sjálfstæðismenn ætlum að samræma betur tímaramma þjónustunnar við vinnutíma foreldra og bjóða upp á aukinn sveigjanleika. Einnig leggjum við áherslu á að yngstu börnin geti stundað markvissa hreyfingu á meðan þau dvelja á frístundaheimili. Þannig viljum við að öll börn eigi möguleika á að stunda íþróttir. Við ætlum að auka samvinnu við íþróttafélög og grunnskóla Reykjanesbæjar til þess að útfæra þessa þjónustu enn betur. Við vitum að samvinna íþróttafélaganna við almennt frístundastarf skiptir miklu máli til að byggja upp fjölskylduvænt samfélag sem stuðlar að jafnri þátttöku foreldra á vinnumarkaði.

Sú fordæmalausa íbúafjölgun sem á undanförnum mánuðum hefur orðið í Reykjanesbæ kallar á mikilvæga innviðauppbyggingu á öllum sviðum. Þetta kallar á aukið húsnæðisframboð, byggingu grunn- og leikskóla og íþróttamannvirkja. Það er nauðsynlegt að spýta í lófana og mæta þessari brýnu þörf.

Við ætlum að tryggja bætta þjónustu fyrir fjölskyldufólk  meðal annars til að koma til móts við vaktavinnufólk sem og þá sem sækja atvinnu til höfuðborgarinnar. Við stefnum á að fleiri leikskólar  bjóði lengda viðveru til kl. 17. Það eykur sveigjanleika foreldra leikskólabarna til að sinna fullu starfi því oft þarf annað foreldrið að fórna sínum vinnutíma og möguleika á framþróun í starfi til að mæta þeim takmarkaða sveigjanleika sem fyrir er. Jafnframt reynist foreldrum oft mjög erfitt að brúa bilið hjá yngstu grunnskólabörnunum eftir að skólatíma lýkur þar sem frístundaheimili eru nú aðeins með opnunartíma til fjögur á daginn.

Breytingar á samfélagsgerðinni kalla á að byggð sé upp skipulögð og þroskandi þjónusta fyrir börn og ungmenni í frítímanum. Í gegnum öflugt frístundastarf  fyrirfinnast mikil tækifæri til þess að styðja við þroska og menntun barna. Þar á að vera vettvangur tómstunda, menntunar, og uppeldis undir handleiðslu hæfs starfsfólks sem hjálpar til við að brúa bilið milli skólatíma og vinnustunda foreldra. Sveitarfélög hafa óhjákvæmilega áhrif á líðan íbúa með því að bjóða upp á þjónustu þar sem frítími og tómstundir og heilsuefling eru samofin. Faglegt og metnaðarfullt frístundastarf er hagsmunamál fyrir fjölskyldur í sveitarfélaginu og jafnframt mikilvægur hlekkur í því að styðja við jöfn tækifæri foreldra á vinnumarkaði. Það er mikilvægt að áhersla á jafnréttismál skili sér í starfsemi sveitarfélaga og að í Reykjanesbæ upplifi íbúar sveitarfélagsins jafnrétti í sínum daglegu samskiptum við sveitarfélagið.  Á sama tíma styður starfið við þá stefnu sjálfstæðismanna að í Reykjanesbæ sé fjölskylduvænt samfélag sem veitir fjölskyldunni meiri tíma til samverustunda.

 

Hanna Björg Konráðsdóttir

Skipar 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ

Sigrún Inga Ævarsdóttir

Skipar 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ

Birgitta Birgisdóttir

Skipar 17. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ