Nýjast á Local Suðurnes

Breytingar á reglugerð munu kosta Sandgerðishöfn milljónir króna árlega

Sandgerðishöfn - Mynd: Suðurnesjabær / Sigurður Stefánsson

Til stendur að breyta reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla, en breytingarnar eru nú er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Að mati hafnarráðs Suðurnesjabæjar munu nýjar reglur íþyngja verulega rekstri og starfsemi fiskihafna.

Að mati hafnarráðs munu þær breytingar á reglugerðinni sem um ræðir hafa í för með sér breytingar á fyrirkomulagi og umgjörð á vigtun sjávarafla á hafnarvog. Í því felst meðal annars krafa um aukinn mannafla og tækjabúnað hafna, sem mun hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað upp á milljónir króna. Slíkur aukinn rekstrarkostnaður mun því bætast við mjög erfiða rekstrarstöðu Sandgerðishafnar, segir í fundargerð ráðsins. Hafnarráð Sandgerðishafnar gerir alvarlegar athugasemdir við þau áform sem birtast í tillögum um breytingar á fyrrgreindri reglugerð, sem munu valda óviðráðanlegum kostnaðarauka í rekstri hafnarinnar. Hafnarráð bendir á að nú þegar þarf Sandgerðishöfn að bera mikinn kostnað vegna þjónustu við Fiskistofu við skráningu og endurskráningu afla sem fer um hafnarvogina. Hafnarráð telur að skoða þurfi alvarlega hvort eðlilegt sé að rekstur hafnarinnar eigi að bera þann kostnað sem hlýst af þeirri vinnu sem unnin er fyrir Fiskistofu að því leyti.

Hafnarráð bendir á að í framangreindum drögum að breytingum á reglugerðinni er gengið í þveröfuga átt miðað við stöðugar tækniframfarir og möguleika sem í þeim felast. Sú tækni sem nú þegar er til staðar ætti að gefa möguleika á að byggja upp nýtt fyrirkomulag við vigtun sjávarafla sem væri mun hagkvæmara en núverandi fyrirkomulag, svo ekki sé talað um þær breytingar sem lagðar eru til á reglugerðinni og munu valda mjög auknum kostnaði. Hafnarráð skorar á Hafnasamband Íslands að beita sér af fullu afli gegn þeim breytingum sem lagðar eru til á reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla. Jafnframt er skorað á Hafnasamband Íslands að beita sér fyrir því að tekið verði upp fyrirkomulag fjarvigtunar hjá öllum höfnum, sem verði fjármagnað og þjónað af fiskveiðieftirliti Fiskistofu fyrir hönd ríkisins. Slíkt fyrirkomulag mun auðvelda Fiskistofu hlutverk sitt við eftirlit með umgengni um nytjastofna sjávar og fiskveiðar, en jafnfram gefa höfnum í landinu möguleika til hagræðingar og nýta þar með bestu fáanlegu tækni hverju sinni, öllum til hagsbóta.