Nýjast á Local Suðurnes

Sláandi niðurstöður í úttekt um fjárveitingar til landshluta – Boðað til opins fundar

Þingmönnum og frambjóðendum Suðurkjördæmis hefur verið boðið til opins fundar, sem Reykjanesbær hefur boðað til svo hægt sé að hefja umræður um niðurstöður úttektar sem sveitarfélagið lét vinna um fjárveitingar ríkisins til helstu stofnana á Suðurnesjum og hvernig þær hafa fylgt þeim mikla uppgangi sem verið hefur á svæðinu.

Í tilkynningu frá Reykjanesbæ segir að niðurstöður úttektarinnar séu sláandi og sýni mikið ósamræmi í fjárveitingum til landshluta. Þá segir að fjárframlög til verkefna á Suðurnesjum séu í engum takti við þann mikla uppgang sem verið hefur á Suðurnesjasvæðinu undanfarin misseri.

Í úttektinni, sem unnin er af ráðgjafarfyrirtækinu Aton, eru framtíðarhorfur metnar með tilliti til þeirra verkefna sem framundan eru á Suðurnesjum.

Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson fara yfir helstu niðurstöður útektarinnar á fundinum og að lokinni kynningu verður opnað fyrir fyrirspurnir og umræður sem Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar mun stjórna. Reykjanesbær hefur boðið fulltrúum þeirra stofnana, sem fjallað er um í úttektinni, á fundinn auk þingmanna og frambjóðenda kjördæmisins svo að hægt sé að hefja umræðu um niðurstöður úttektarinnar þegar í stað.

Allir eru velkomnir á fundinn sem haldinn verður í Bíósal DUUS-húsa og hefst klukkan 17:30, fimmtudaginn 19. október.