Nýjast á Local Suðurnes

Atvinnuleysi eykst hratt á Suðurnesjum

Atvinnuleysi á Suðurnesjum var 2,7 prósent árið 2017 en 3,2 prósent í fyrra, að því er fram kemur á vef Vinnumálastofnunar. Atvinnulausum á Suðurnesjum fjölgaði um 99 á milli 2017 og 2018.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum var svipað og á höfuðborgarsvæðinu fyrir einu til tveimur árum síðan en hefur aukist hratt síðan, að sögn Karls Sigurðssonar, sérfræðings hjá Vinnumálastofnun, í viðtali í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hluti skýringarinnar er erfiðleikar í ferðaþjónustunni, þar sem hægt hefur á vexti.

„Líka að það hefur verið ágætt framboð af tiltölulega ódýru húsnæði á Suðurnesjum og menn hafa verið að flytjast þangað, kannski svona í meira mæli heldur en atvinnulífið getur svarað, þannig að það er orðin meiri samkeppni um störfin að því leyti til.“

Þá sé hluti skýringarinnar einnig sá að árin 2017 og 2018 hafi metfjöldi erlendra ríkisborgara flutt til landsins. Margir þeirra hafi sest að á Suðurnesjum.