Tvöfalt meiri geislun við Reykjanesvirkjun en talið var

Geislavarnir Ríkisins segja að engin hætta sé á ferðum þótt geislavirkni við Reykjanesvirkjun sé tvöfalt meiri en fyrstu mælingar bentu til. Þetta kom fram í kvöldfréttum Rúv í gær.
Í fréttatímanum var rætt við Gísla Jónsson, viðbúnaðarstjóra hjá Geislavörnum ríkisins, sem sagði meðal annars: “„Niðurstaðan er nokkurn veginn þannig að sum sýnin eru tvöfalt geislavirkari heldur en við höfðum mælt áður í sumar. Það er svipað og við áttum von á. Þegar við gáfum út leyfið í ágúst til HS Orku áttum við von á að það yrði hærra.“
Hann bætti svo við að hvorki starfsfólki HS Orku né almenningi stafaði hætta af aukinni mengun. “Það þurfti yfir 1.000 tíma til að nálgast þau viðmiðunarmörk sem við berum okkur við – eitt millisívert fyrir almenning. Og það var miðað við verstu mögulegu aðstæður í rykmettuðu lofti. En starfsfólkið er með hlífðarbúnað þannig að geislaálagið fyrir það er hverfandi.“