Nýjast á Local Suðurnes

Vilja að öll börn á Suðurnesjum fái gjafir undir jólatréð

Þriðja árið í röð stendur Styrmir Barkarson fyrir söfnun á meðal fólks og fyrirtækja sem á að tryggja það að öll börn skjólstæðinga Velferðarsjóðs Suðurnesja fái gjafir undir jólatréð, að ógleymdum skógjöfum frá jólasveinum.

Þar sem  Styrmir er nú búsettur í Svíþjóð, þar sem hann stundar nám, fær hann aðstoð frá þeim Freydísi Kneif, Írisi Dröfn og Gunnheiði sem eru kennarar í Myllubakkaskóla.

“Í ár hefur mig verkjað svolítið í hjartað yfir því að vera búsettur erlendis því ég sá ekki fram á að geta gert þetta aftur í ár. Það birti svo hressilega yfir þegar Freydís Kneif, Íris Dröfn og Gunnheiður, kennarar í Myllubakkaskóla, höfðu samband við mig og buðu fram ómetanlega aðstoð. Með þeirra hjálp getum við gert þetta enn eitt árið og veitt smá jólagleði í líf sem flestra barna.” Segir Styrmir í pistli á heimasíðu sinni.

Hver einasta króna sem safnast fer beint í gjafakaup og ekki er um að ræða forpakkaðar gjafir heldur geta Foreldranir valið gjafir sem þeir vita að börnin hafa ánægju af.  Styrmir er þakklátur þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem leggja söfnuninni lið.

“Hjartans þakkir til ykkar sem hafið þegar lagt söfnuninni lið. Það eru á annað hundrað börn á Suðurnesjum sem búa við skort og það er ómetanlegt að geta verið hluti af sameiginlegu átaki okkar til að veita ljósi inn í líf þeirra um jólin. Sagði Styrmir á Facebook-síðu sinni.”

Styrmir við háskólann í Lundi, þar sem hann stundar nám

Styrmir við háskólann í Lundi, þar sem hann stundar nám

Þessi söfnun er sérstök að því leyti að hún sameinar krafta ólíkra aðila til að gera sem best fyrir börnin. Heildsalar, bókaforlög, einstaklingar og hjálparsamtök eins og Velferðarsjóður og Hjálpræðisherinn gera það að verkum að hægt er að ná til þeirra sem þurfa hjálp og gefa þeim góðar gjafir og glaðninga fyrir jólin.

Undanfarin tvö ár hefur safnast vel yfir hálf milljón króna til málefnisins og í ár er þegar búið að safna um 150.000 krónum að sögn Styrmis og söfnunin rétt að byrja, hann vonast til að ná að minnsta kosti sama árangri og áður.

“Það eru yfir 100 börn á Suðurnejsum sem búa við fátækt. Á landinu öllu eru þau á annað þúsund. Það er ekki í lagi. Ég get kannski ekki lagað það en ég get gert hvað ég get til að leyfa krökkunum að njóta jólanna.

Ég vona auðvitað alltaf að ég geti náð þvílíkum draumaárangri að við náum til enn fleiri barna. Að einhver sjái auglýsinguna og moki í söfnunina peningum og ég geti lýst upp jólin hjá öllum börnunum….en ég geri eins og ég get.” Sagði Styrmir í samtali við Local Suðurnes

Hægt er að fylgjast með framgangi söfnunarinnar á bloggsíðu Styrmis en þar eru meðal annars birt yfirlit yfir framlög og útgjöld sem hann uppfærir reglulega.

Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á söfnunarreikning með númerinu 0542-14-403565 á kennitölu 281080-4909.