Nýjast á Local Suðurnes

Skýrsla KPMG um sameiningu Garðs og Sandgerðis: Fábreytni atvinnulífs einkennir minni sveitarfélög

Kosning um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðis fer fram þann 11. nóvember næstkomandi. Í sumar skipuðu bæjarstjórnir sveitarfélaganna sex manna samstarfsnefnd um sameiningu og hefur nefndin skilað áliti ásamt skýrslu þar sem fram koma ýmsar upplýsingar um málið. Þá var málið tekið til umræðu á tveimur fundum bæjarstjórna beggja sveitarfélaganna.

Í skýrslu sem KPMG vann fyrir sveitarfélögin var ákveðið að nota sviðsmyndir til að draga fram mögulega framtíð sveitarfélaganna og í tengslum við það voru tekin viðtöl við einstaklinga í báðum sveitarfélögunum, framkvæmd rafræn könnun meðal kjörinna fulltrúa, starfsmanna og íbúa.

Séu umræddar sviðsmyndir skoðaðar má sjá að skýrsluhöfundar telji að fábreytni atvinnulífs sé einkenni minni sveitarfélaga og að fjölmennari sveitarfélög séu líklegri til að búa yfir aukinni fjölbreytni í atvinnulífi, þar með talið frumkvöðlastarfi og að þekkingarstörfum fjölgi.

Tvær sviðsmyndanna, sem sjá má hér fyrir neðan eru þannig líklegar til að lýsa stöðu sameinaðs sveitarfélags, þ.e. „Hver er sinnar gæfu smiður“ og „Schiphol“ og tvær,  „Ísbjarnablús“ og „Varnarliðið“ lýsa mögulegri stöðu sveitarfélaga sem ekki hafa sameinast.