Nýjast á Local Suðurnes

Vel á þriðja hundrað iðkendur tóku þátt í vinadegi Keflavíkur og Njarðvíkur í körfubolta

Vinadagur yngri flokka Keflavíkur og Njarðvíkur í körfuknattleik fór fram í Blue-Höllinni þann 6. janúar síðastliðinn, en þar mættust iðkendur beggja liða frá leiksskólaaldri og upp í 6. bekk grunnskóla í æfingaleikjum.

Dagurinn heppnaðist einstaklega vel og mættu vel á þriðja hundrað krakkar á viðburðinn auk þess sem foreldrar fylltu stúkuna og létu vel í sér heyra. Á meðal þess sem krökkunum var boðið upp á var pizzuveisla í boði Humarsölunnar og fyrirlestur í umsjón Eysteins Húna Haukssonar þjálfara Keflvíkinga í knattspyrnu sem ræddi við börnin um hvað það er að vera góður liðsmaður/félagi.

Aðallið félaganna tveggja í karlaflokki mætast svo í sannkölluðum nágrannaslag í kvöld, í Blue-Höllinni, en þar má búast við töluvert meiri hörku en í gær.