Nýjast á Local Suðurnes

Að verða lúin í baráttunni við kísilverin – Vantar 500 undirskriftir til að knýja fram kosningu

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Enn vantar um 500 undirskriftir til að knýja fram íbúakosningu varðandi uppbyggingu kísilvera í Helguvík. Um 2.200 undirskriftir hafa safnast en 2.700 þurfa að skrifa undir til þess að íbúakosning fari fram. Undirskriftir frá öðrum bæjarfélögum en Reykjanesbæ eru ekki teknar gildar.

Þetta kemur fram í stöðufærslu á Fésbókarsíðu Andstæðinga stóriðju í Helguvík, en þar á bæ furða menn sig á dræmri þátttöku og þá sérstaklega frá íbúum í Keflavíkurhverfi Reykjanesbæjar. Þá er tekið fram í stöðuuppfærslunni að helstu baráttumenn hópsins séu að verða ansi lúin.

“Við sem höfum staðið vaktina erum að verða ansi lúgin og ég t.d átta mig ekki alveg á því hvort fólki sé alveg sama um lýðræðislegan rétt sinn. Það komu inn um c.a 1,100 rafrænar undirskriftir og svipað mikið af skriflegum undirskriftum. Einnig voru margir sem skrifuðu undir sem ekki eiga lögheimili í bæjarfélaginu en það er ekki talið með. Já betur má ef duga skal.” Segir í færslunni.

Þá er tekið fram í færslunni að enn sé hægt að skrifa undir í versluninni Kosti í Njarðvík.