Nýjast á Local Suðurnes

Naumt tap hjá Njarðvíkingum í furðulegum spennuleik

Erlend og innlend lið hafa áhuga á að fá Hauk Helga í sínar raðir

Njarðvíkingar töpuðu naumlega gegn KR-ingum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Dominos-deildarinnar í körfuknattleik í kvöld, lokatölur eftir spennandi tvíframlengdan leik í DHL-höllinni, 69-67. Ótrúlegar tölur eftir tvær framlengingar.

Barátta Njarðvíkinga í fyrri hálfleik var til fyrirmyndar, vörnin var fyrnasterk og KR liðið átti í töluverðu basli. KR-ingar höfðu þó þriggja stiga forystu að loknum fyrsta leikhluta, 18-15. Barátta Njarðvíkinga skilaði liðinu svo sjö stiga forystu þegar flautað var til leikhlés, 32-39.

Það var svo vörn KR-inga sem var fyrnasterk í síðari hálfleik og það gerði Njarðvíkingum, sem skoruðu aðeins 9 stig á 19 mínútna kafla erfitt fyrir. Þeir gátu þó þakkað fyrir að hittni KR-inga var afar slök á sama tímabili, þó hún hafi verið skárri. Njarðvíkingar náðu að tryggja sér framlengingu með því að skora fimm stig á lokamínútunni og staðan eftir venjulegan leiktíma 53-53 – Lokatölur sem oft gætu verið hálfleikstölur í körfubolta.

Jafnræði var með liðunum í fyrri framlengingunni sem endaði á þann veg að Haukur Helgi Pálsson jafnaði leikinn fyrir Njarðvíkinga þegar sjö sekúndur voru eftir. Síðari framlengingin var á svipuðum nótum, Njarðvíkingar tveimur stigum undir, með boltann þegar 10 sekúndur voru eftir, en að þessu sinni náðu KR-ingar að stela boltanum og tryggja sér tveggja stiga sigur í skrýtnum en skemmtilegum leik.

Hauk­ur Helgi Páls­son skoraði 26 stig, tók ​15 frá­köst og var með ​4 var­in skot, Jeremy Martez Atkin­son átti góðan leik fyrir Njarðvíkinga, skoraði 2 stig og tók 24 frá­köst. Oddur Rúnar og Logi Gunnarsson voru ekki alveg að finna fjölina í Frostaskjóli en þeir gerðu sex stig hvor.