Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjaliðum spáð slæmu gengi – Liðsheildin getur fleytt okkur ofar en spáin segir til um

Njarðvíkingum er spáð falli úr Inkasso-deildinni og Keflvíkingum úr Pepsí-deildinni af sérfræðingum Fótbolta.net. Þá reikna sérfræðingarnir ekki með góðu gengi Grindvíkinga, en liðinu er spáð 7. sæti í deild þeirra bestu.

Njarðvíkingar unnu 2. deildina síðastliðið sumar og að mati þjálfara liðsins á það fullt erindi í Inkasso-deildina og stefnt er að því að halda sætinu í deildinni.

„Við erum með frekar ungt lið sem er komið með mikla reynslu í neðri deildum en eru að stíga skrefið ofar. Hjá okkur mun þetta fyrst og fremst snúast um liðsheild. Ég tel okkur vera með öfluga liðsheild sem getur fleytt okkur mun ofar í deildinni en spáin segir til um. Ég hef mikla trú á leikmannahópnum okkar og því sem við höfum verið að vinna að síðan 2016. Við ætlum að gera þetta tímabil eftirminnilegt.”  Segir Rafn Markús Vilbergsson, þjálfari Njarðvíkinga í spjalli við fótbolti.net.

Keflvíkingar endurheimtu sæti sitt í deild þeirra bestu í fyrra eftir tvö ár í Inkasso-deildinni, en sérfræðingar fótbolti.net telja liðið ekki hafa næga reynslu til þess að halda sæti sínu í deild þeirra bestu auk þess sem talið er að breiddin sé ekki næg hjá Keflvíkingum fyrir krefjandi Pepsí-deildarbaráttu.

Grindvíkingum er spáð sjöunda sæti í Pepsí-deildinni að þessu sinni, en liðið endaði í fimmta sæti á síðasta tímabili. grindvíkingar hafa misst helsta markaskorara sinn frá síðasta tímabili, Andra Rúnar Bjarnason, en hann hélt í atvinnumennsku. Andri Rúnar skoraði 19 af 31 marki Grindavíkur á síðasta tímabili.