Nýjast á Local Suðurnes

Þjóðarsáttmáli um læsi undirritaður á morgun

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar munu undirrita „Þjóðarsáttmála um læsi“ í Ráðhúsi Reykjanesbæjar þriðjudaginn 15. september. Dagskráin hefst kl. 13:00 með ávarpi ráðherra og bæjarstjóra og lýkur með flutningi Ingólfs Veðurguðar á laginu „Það er gott að lesa“ sem er einkennislag verkefnisins. Markmið Þjóðarsáttmálans er að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns og að læsi festi sig í sessi sem hluti af almennu skólastarfi til framtíðar.

Gott læsi er nauðsynlegt til að hver og einn geti nýtt hæfileika sína til fulls samfélaginu öllu til góða, auk þess sem lestrarfærnin er forsenda fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Að undanförnu hafa áhyggjur manna vaxið vegna hrakandi lesskilnings og í ljós hefur komið að við lok grunnskóla getur of stór hluti barna ekki lesið sér til gagns. Lakur lesskilningur getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með atvinnutækifæri síðar meir, segir á heimasíðu Reykjanesbæjar.