Nýjast á Local Suðurnes

53 útskrifuðust frá FS – Sylvía Rut er dúx haustannar

Fjöldi nemenda fékk viðurkenningar við útskriftina. Dúx annarinnar, Sylvía Rut er lengst til vinstri í neðri röð

Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 19. desember síðastliðinn. Sylvía Rut Káradóttir var með hæstu meðaleinkunina á stúdentsprófi og er dúx haustannar.

Að þessu sinni útskrifuðust 53 nemendur; 42 stúdentar, einn af starfsbraut, átta úr verknámi og þrír úr starfsnámi.  Nokkrir útskrifuðust af tveimur brautum.  Karlar voru 30 og konur voru 23.

Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Sylvía Rut Káradóttir styrkinn.  Sylvía Rut hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi.  Þau Friðrika Ína Hjartardóttir, Guðrún Lára Árnadóttir, Sigurborg Lúthersdóttir og Halldór Bragi Skúlason fengu öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í lífsleikni og ræðumennsku.

Við lok athafnarinnar veitti skólameistari Ásu Valgerði Einarsdóttur kennara gullmerki FS en hún hefur starfað við skólann í 25 ár.