Nýjast á Local Suðurnes

Stuttmyndadagar á KEF

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF er haldin hátíðleg í Reykjavík dagana 28. september – 8. október 2023. RIFF teygir anga sína til Keflavíkurflugvallar í ár, þar sem tíu vel valdar íslenskar stuttmyndir frá hátíðinni verða sýndar í brottfarasal flugvallarins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia, en þar segir að í tilefni af því að kvikmyndahátíðin sé haldin í 20. skiptið í ár, verða sýndar á flugvellinum íslenskar stuttmyndir sem eiga það sameiginlegt að hafa verið valdar Besta íslenska stuttmyndin á RIFF undanfarin tíu ár. Þar má nefna stuttmyndina Hvalfjörður eftir Guðmund Arnar Guðmundsson sem er margverðlaunuð stuttmynd, Málarinn eftir Hlyn Pálmason sem fékk einnig tilnefningu til Dönsku kvikmyndaverðlaunanna og Já-fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna. Gestum flugvallarins stendur til boða að sjá íslenskar stuttmyndir sem hafa sumar hverjar slegið í gegn á alþjóðavísu og sýna því vel þann mikla kraft sem býr í kvikmyndagerð á Íslandi.