Nýjast á Local Suðurnes

Elvar Már fer vel af stað í Svíþjóð

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson fer vel af stað með liði sínu Boras í hinni sænsku Basketligan, en leikstjórnandinn knái hefur verið í byrjunarliði í fyrstu fimm leikjum tímabilsins.

Elvar Már hefur spilað 26,8 mínútur að meðaltali í leik það sem af er tímabilinu og skorað 17,4 stig. Þá hefur Elvar Már verið drjúgur í að aðstoða liðsfélaga sína við stigaskorun, en hann hefur gefið 7 stoðsendingar að meðaltali í leik, sem gerir hann að næst stoðsendingahæsta leikmanni deildarinnar.

Boras er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar, en á leik til góða á liðið í öðru sæti og tvo leiki til góða á liðið sem trónir á toppnum.