Nýjast á Local Suðurnes

Samningur við Icelandair tryggir störf á Suðurnesjum

Mynd: Bus4U

Á dögunum var undirritaður samningur milli Icelandair group og Bus4U Iceland til nokkura ára um flutning á áhöfnum félagsins til og frá höfuðborgarsvæðinu. Eigandi hópferðafyrirtækisins segir samninginn vera lyftistöng fyrir Bus4U og að hann muni tryggja mörg störf á Suðurnesjum.

Samningurinn tekur gildi þann 1. maí næstkomandi, en í tilkynningu á Facebook-síðu Bus4U segir að þann dag árið 2000 hafi eigandi fyrirtækisins hafið akstur fyrir Flugleiðir með starfsfólk Keflavíkurflugvallar.

“Ég er hrikalega stoltur að standa á þessum stað í dag og hafa traust frá félagi eins og Icelandair og kann ég dugnaðarforkunum sem vinna hjá Bus4u miklar þakkir og fólkinu sem hafði trú á okkur í gegnum súrt og sætt.” Segir Sævar Baldursson, eigandi Bus4U í tilkynningunni.

Fyrirtækið, sem meðal annars sinnir almenningssamgöngum í Reykjanesbæ, hefur undanfarið auglýst eftir bílstjórum og vaktstjórum auk fólks til að manna næturvaktir við þrif á bifreiðum félagsins.