Nýjast á Local Suðurnes

Bitcoin-risi á Reykjanesi veltir 2,5 milljörðum króna – Hagnaðurinn minnkar hratt

Hagnaður rafmyntafélagsins Bitfury Iceland ehf. dróst saman á síðasta rekstrarári, en félagið hagnaðist um 90 milljónir króna. Starfsemi fyrirtækisins er hjá gagnaverum Advania á Reykjanesi.

Félagið hefur hagnast um 460 milljónir króna undanfarin þrjú rekstrarár. Hagnaður af rekstrarárinu 2016/2017 nam 128 milljónum króna  og 238 milljónum króna rekstrarárið 2015/2016.

Bitfury var eitt fyrsta félagið til að hefja námugröft eftir rafmyntum hér á landi. Samkvæmt ársreikningi Bitfury Iceland nam velta þess tæplega 2,5 milljörðum króna á síðasta rekstrarári og hækkaði um 850 milljónir króna milli ára. Kostnaður af seldri þjónustu nam 1,95 milljörðum króna en var 916 milljónir króna árið áður.

Engin ársverk voru skráð hjá félaginu í fyrra en voru þrjú á fyrra rekstrarári. Því lækkar launakostnaður úr 39 milljónum króna í fimm milljónir króna á milli ára.