Fundu heimatilbúna sprengju í Reykjanesbæ
Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning frá gangandi vegfaranda í Reykjanesbæ um undarlegan hlut sem á vegi hans varð. Við nánari athugun reyndist hluturinn vera heimatilbúin sprengja.
Í Facebook-færslu lögreglunnar kemur fram að sprengjan hafi verið samsett úr flugeldum og bendir lögregla foreldrum á að brýna fyrir börnum sínum að afar hættulegt geti verið að eiga við flugelda líkt og gert var í þessu tilviki. Þá segir lögregla að gamlir flugeldar sem ekki eru geymdir við réttar aðstæður geti verið varasamir.