Nýjast á Local Suðurnes

Sóttu slasaðan einstakling við gosstöðvarnar

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík var fyrr í dag kölluð út vegna ferðmanns sem hafði slasast illa á fæti í nágrenni gosstöðvanna.

Eftir að búið var að finna manninn og hlúa að honum var hann settur á börur sem komið var fyrir í mikið breyttum björgunarsveitarbíl, segir í tilkynningu frá sveitinni. Viðkomandi ásamt sjúkraflutningamönnum, var fluttur niður á bílastæðið í Leirdal þar sem sjúkrabíllinn beið hans og var hann svo fluttur þaðan á sjúkrahús.

Þar með lauk enn einu útkallinu við gosstöðvarnar þar sem samstarf viðbragðsaðila er alveg upp á 10 enda mikið og gott samstarf milli allra aðila,
Lögreglu og Brunavarna Suðurnesja

Nú er ferðasumarið að hefjast og hundruðir leggja leið sína að gosstöðvunum daglega enda svæðið alveg frábært með merktum göngustígum og nýlögðu hrauni. Við viljum hvetja alla sem eiga leið um svæðið að fara varlega, fylgja stígunum og ganga vel um. Þegar það rignir lítið eins undanfarna daga verða allar brekkur svo lausar í sér og þá er hætta á slysum. Segir í tilkynningunni.