Það sýður á stuðningsmönnum Keflvíkinga eftir 1-7 tap gegn Víkingum
Koma þeirra Farid Zato og “Chuc” Chijindu virðist ekki hafa haft mikil áhrif á Keflavíkurliðið sem mætti Víkingum í Víkinni í kvöld, þó Chuck hafi átt ágætis spretti í upphafi leiks og verið nálægt því að skora. 1-7 tap gegn liði tveimur sætum ofar er óásættanlegt og óhætt er að segja að það sjóði á stuðningsmönnum liðsins eftir þessa útreið, nokkrir harðir stuðningsmenn liðsins sem Local Suðurnes hefur rætt við eru allt annað en sáttir við gang mála.
Leikur liðsins í kvöld var þó akki alslæmur, liðið skapaði sér færi en Thomas Nielsen markvörður Vikinga átti fínan dag í markinu og varði meðal annars vel í tvígang frá Sindra Snæ Magnússyni í fyrri hálfleik eftir að Víkingar höfðu náð forystunni á 25. mínútu. Staðan versnaði svo undir lok hálfleiksins þegar Unnar Már Unnarsson setti knöttinn í eigið mark þegar hann reyndi að hreinsa frá fyrirgjöf Víkinga. 2-0 í hálfleik var ekki sanngjarnt en nokkuð ljóst að Keflvíkingar áttu erfiðan síðari fyrir höndum.
Sennilega versti 20 mínútna kafli sögunnar
Og sú varð raunin, þrátt fyrir Magnús Þórir Mattíasson næði að minnka muninn í 2-1 eftir um 10 mínútna leik. Skömmu eftir mark Magnúsar kom sennilega einn versti 20 mínútna kafli frá upphafi Pepsí-deildarinnar en þá fengu Keflvíkingar á sig fimm mörk sem flest komu eftir skyndisóknir heimamanna – En á þessum tímapunkti höfðu Keflvíkingar fært sig framar á völlinn til þess að freista þess að jafna metin.
Vörn Keflvíkinga í þessum leik var afar slöpp eins og svo oft í sumar og nú hefur liðið fengið á sig 31 mark í 12 leikjum sem verður að teljast með slappara móti og liðið situr sem fyrr eitt á botninum með aðeins fimm stig. Næstu leikir eru svo gegn FH og Breiðablik og ljóst að róðurinn verður þungur.
“Menn eru bara ekki að spila með hjartanu”
Stuðningsmenn Keflvíkinga eru skiljanlega æfir yfir framistöðu liðsins í sumar og nokkrir þeirra sem Local Suðurnes ræddi við eftir leikinn segja eins og er að eitthvað mikið sé að í herbúðum liðsins.
“Menn eru bara ekki að spila með hjartanu og hafa ekki verið að gera það í sumar,” sagði einn af þeim harðari sem ekki vildi láta nafns síns getið, “það virðist engu máli skipta þó það séu komnir nýjir þjálfarar, sem koma í raun úr hópnum og ættu að hafa liðið með sér, menn eru bara ekki með hausinn í lagi.”
Og annar vildi hreinlega láta skipta um stjórn félagsins: “Menn eru bara að gera eitthvað vitlaust, það er ekki bara hægt að kenna strákunum um þetta, það verður að skoða áherslurnar hjá stjórninni. Eða allavega verður að gera eitthvað, það er búið að prófa að skipta um þjálfara, nú þarf að gera eitthvað meira.”
Töluverð ókyrrð hefur verið í kringum stjórn liðsins síðan í vetur en Baldur Þórir Guðmundsson bauð sig sem kunnugt er fram gegn núverandi formanni knattspyrnudeildarinnar Þorsteini Magnússyni sem hefur verið viðloðandi stjórnina undanfarin 20 ár. Magnús hafði betur í því kjöri og situr því enn sem formaður en hann hefur lagt mikla áherslu á að reka deildina réttu megin við núllið – Nú spyrja stuðningsmenn sig hvort of mikil áhersla hafi verið lögð á reksturinn á kostnað gæða, eða eins og einn stuðningsmaðurinn orðaði það í spjalli við blaðamann:
“Samkeppnin í íslenska boltanum er bara orðin svo mikil, önnur lið virðast leggja allt undir til að komast í Evrópukeppni, þar eru peningarnir. En ekki við, við erum að leggja áherslu á eitthvað allt annað.”