Nýjast á Local Suðurnes

Stefán valinn leikmaður umferðarinnar: “Aðstoðarþjálfarinn bað mig um að skjóta úr næsta horni”

Mynd: Knattspyrnudeild Njarðvíkur

Stefán Birgir Jóhannesson, leikmaður Njarðvíkur er leikmaður 1. umferðar í Inkasso-deildinni að mati vefsíðunnar fótbolti.net. Stefán Birgir skoraði mark beint úr hornspyrnu í leik gegn Þrótti í Laugardal auk þess að leggja upp annað í 3-2 sigri.

Hann segir það hafa verið sérstaklega gaman að skora beint úr hornspyrnu og að það hafi verið gert að ósk aðstoðarþjálfara liðsins sem gaf honum fyrirmæli um að reyna skot úr hornspyrnunni frekar en fyrirgjöf.

„Þetta gekk bara fínt. Það var sérstaklega gaman að ná að skora beint úr horni. Snorri aðstoðarþjálfari bað mig um að skjóta úr næsta horni og reyna að skora, ætli ég verði ekki að gefa honum eitthvað credit blessuðum manninum. Heilt yfir bara fínt, það var ágætis taktur í liðinu hjá okkur og við bíðum spenntir eftir að fá Þórsarana í heimsókn til okkar næstu helgi.”

Viðtal við leikmanninn má finna í heild sinni á fótbolti.net, en hann segir það vera virkilega sterkt að byrja á góðum útisigri.

„Óskabyrjun, eigum við ekki að segja það. Þróttur er með frábæra leikmenn í sínum röðum og verða öflugir í sumar. Ég held að það verði ekki mörg lið sem að vinna þá í Laugardalnum. Nú er bara fyrir okkar að recovera og svo er það bara upp með sokkana á laugardaginn,” sagði leikmaður 1. umferðar.

Njarðvík mætir Þór á heimavelli næstkomandi laugardag.