Nýjast á Local Suðurnes

Nesfiskur lætur smíða nýjan frystitogara

Tölvuteikning af nýjum togara Nesfisks

Nesfiskur í Garði hefur gert samning við skipasmíðastöðina Armon í Vigo á Spáni um smíði á rúmlega 66 metra löngum frystitogara og ráðgert er að smíðinni ljúki haustið 2021. Frá þessu er greint á vefsíðunni aflafrettir.is 

Skipið, sem verður gefið nafnið Baldvin Njálsson, er 66,3 metrar á lengd og 15 metrar á breidd og mun leysa Baldvin Njálsson GK 400 af hólmi. Djúprista skipsins verður um 7 metrar og það verður með skrúfu sem er 5 metrar í ummál. Snúningshraði hennar er lágur og skipið fyrir vikið sérlega sparneytið og verður í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki.

Nesfiskur gerir nú út einn frystitogara, tvo ísfisktogara, þrjá snurvoðarbáta og tvo línubáta. Fyrirtækið er með frystingu, ferskfiskvinnslu, saltfiskverkun, skreiða og hausaþurrkun í Garði og frystingu og ferskfiskvinnslu í Sandgerði.