Nýjast á Local Suðurnes

Keflavík endaði veruna í Pepsí-deildinni á sigri

Síðusta um­ferð Pepsi-deildar karla í knatt­spyrnu var leikin  í dag og fengu Keflvíkingar Leiknismenn í heimsókn á Nettó-völlinn. Bæði lið voru fallin niður í 1. deild fyrir leikinn í dag.

Keflvíkingar léku ágætis fótbolta í dag þrátt fyrir að kalt væri í veðri. Hörður Sveinsson kom Keflvíkingum yfir strax á 4. mínútu leiksins, sannkölluð óskabyrjun. Fylkismenn áttu svo fyrsta skot sitt í leiknum á 29. mínútu og hafnaði það í netinu hjá Keflvíkingum. Hörður skorað svo sitt annað mark í leiknum á 35. mínútu og kom Keflvíkingum í 2-1 sem var staðan í leikhléi.

Lítið markvert gerðist svo fyrr en um tíu mínútur voru til leiksloka, Keflvíkingar áttu flotta sókn upp hægra megin sem endaði með flottu skoti frá Sigurbergi Elíssyni sem þandi netmöskva Leiknismanna. Leiknismenn klóruðu svo í bakkann í uppbótartíma með laglegu marki, 3-2 urðu því lokatölur leiksins.

Keflvíkingar enduðu því deildina með 2 sigra, 4 jafntefli og 16 tapaða leiki sem gera 10 stig. Liðið fékk á sig 61 mark sem mun vera met í efstu deild en skoraði aðeins 22.