Nýjast á Local Suðurnes

Jákvæð teikn á lofti í Vogum – Mikil fjölgun íbúa kallar á innviðauppbyggingu

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga samþykkti á fundi sínum í gær fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára áætlun 2025-2027. Samkvæmt fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jávæð um 90 milljónir króna og veltufé frá rekstri 249 milljónir króna, eða sem nemur 11,3% af áætluðum heildartekjum ársins.

Við undirbúning fjárhagsáætlunar hefur verið lögð höfuðáhersla á að styrkja rekstrargrundvöll sveitarfélagsins með hagræðingu á öllum sviðum og markvissari forgangsröðun útgjalda, segir í tilkynningu. Markmiðið er að sveitarfélagið uppfylli skilyrði laga um fjárhagslega sjálfbærni og jafnvægi í rekstri og geti staðið undir fyrirsjánlegri þörf fyrir innviðauppbyggingu samhliða mikilli fjölgun íbúa.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2024:

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jákvæð um 90,1 milljónir króna eða 4,1% af tekjum.
  • Framlegðarhlutfall A- og B-hluta verði 13% á árinu 2024
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta verði jákvæð um 62,5 milljónir króna eða 3,4% af tekjum.
  • Skuldir og skuldbindingar A- og B-hluta (skuldahlutfall) verði 92,5% í árslok 2024.
  • Skuldaviðmið samkv. reglugerð 502/2012 verði 72,9% í árslok 2024
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta verði 249 milljónir króna eða 11,3% af heildartekjum.
  • Launahlutfall verði 51,8% á árinu 2024 (53,9% árið 2023).
  • Útsvarsprósenta verði óbreytt, eða 14,74%.
  • Álagningarhlutfall fasteignaskatta verði óbreytt á milli ára.
  • Almennt er miðað við að gjaldskrár fylgi verðlagsþróun, þ.e. að þjónustugjöld haldist óbreytt að raungildi á milli ára (8%).
  • Áætlaðar fjárfestingar nemi 158 milljónum króna á árinu 2024 eða 7,2% af áætluðum heildartekjum.