Nýjast á Local Suðurnes

Samfélagið nýtur góðs af starfsemi Kísilvera

-Vöru- og Þjónustukaup Elkem hjá fyrirtækjum í heimabyggð tæpir 2 milljarðar á ári

Um 5% af útsvarstekjum Akraness og um 14% af útsvars- og gjaldatekjum Hvalfjarðarsveitar koma frá kísilveri Elkem á Grundartanga. Um 100 manns sem búsettir eru á Akranesi starfa hjá fyrirtækinu en íbúafjöldinn í sveitarfélaginu er um 7000 manns. Til samanburðar þá munu á milli 200-300 manns hafa atvinnu af kísilverum Thorsil og United Silicon í Helguvík þegar starfsemin verður komin á fullt skrið.

elkem gestur

Gestur Pétursson forstjóri Elkem á Íslandi

Elkem á Grundartanga leggur áherslu á að versla vörur og þjónustu í heimabyggð, það er af fyrirtækjum á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit og segir Gestur Pétursson forstjóri fyrirtækisins að vöru- og þjónustukaup Elkem af fyrirtækjum í sveitarfélögunum tveimur hafi numið tæplega tveimur milljörðum árið 2014.

„Þegar horft er til atvinnusköpunar að þá er fjöldi starfa í kísiliðnaði u.þ.b. 2 sinnum fleiri per MW (orkunotkun) í samanburði við áliðnaðinn. Flest okkar starfsfólk er búsett á Akranesi eða í Hvalfjarðarsveit.“ Sagði Gestur

„Að auki kaupum við ýmsa þjónustu frá fyrirtækjum á nærsvæði okkar. Sem dæmi að þá voru vöru- og þjónustukaup árið 2014, við fyrirtæki staðsett í Hvalfjarðarsveit og á Akranesi, um 1,8 milljarðar króna. Þannig að það er óhætt að segja að bein og óbein áhrif eru veruleg af starfseminni.“

Samfélagið nýtur góðs af

„Við erum stolt af því að vera virkur samfélagsþegn. Við erum með skýra stefnu gagnvart samfélagsábyrgð og þátttöku í framfaraverkefnum þar sem við leggjum sérstaka áherslu á verkefni sem snúa að öryggis-, heilsu- og umhverfismálum í nærsamfélaginu okkar.“ Sagði Gestur aðspurður um þátttöku Elkem í samfélagslegum verkefnum.

„Sem dæmi að þá stendur það skýrt í umhverfisstefnu fyrirtækisins að eitt af markmiðum okkar til ársins 2018 er að sýna samfélagslega ábyrgð með þátttöku og uppbyggingu á sviði nýsköpunar í umhverfismálum með beinum fjárframlögum og fjárfestingum, umhverfinu og rekstri fyrirtækisins til góða.“

ARN

Um 100 manns af Akranesi vinna hjá Elkem

Fyrirtækið hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum í gegnum tíðina, til að mynda lagði fyrirtækið til fjármagn við uppbyggingu Hvalfjarðarganga  en göngin spara um 1,6 milljarða ISK/ári og minnka útblástur gróðurhúsaloftegunda um 18.000 tonn af CO2 á ári.

„Annað dæmi um verkefni sem við erum stolt af er að hafa komið að stofnun Endurvinnslunnar og við eigum í dag 8% hlut en Enduvinnslan hefur náð ótrúlega góðum árangri gagnvart endurvinnsluhlutfalli drykkjarumbúða á landsvísu, sérstaklega þegar við berum Ísland saman við Norðurlöndin sem eru framarlega þegar kemur að endurvinnslu.“ Sagði Gestur

Í dag er stærsta samfélagsverkefni Elkem í formi samstarfsverkefnis við Skógrækt ríkisins. Markmið þess verkefnis er að gera skógrækt á Íslandi að sjálfbærri atvinnugrein og sagði Gestur að slíkt verkefni muni gera okkur kleift að draga enn frekar úr umhverfisáhrifum með því að auka notkun á lífrænu kolefni í stað ólífræns kolefnis, sem er mun umhverfisvænna á hnattræna vísu.