Nýjast á Local Suðurnes

Stuttir kaflar á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi á lista yfir forgangsröðun verkefna

Einungis tveir kaflar Reykjanesbrautar og stuttur kafli á Grindavíkurvegi koma til greina sem flýtiframkvæmdir samkvæmt lista yfir forgangsröðun framkvæmda sem tekinn var saman af starfshóp á vegum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Starfshópurinn bar saman framkvæmdir með hliðsjón af umferðaröryggi, umferðarþunga og þjóðhagslegum ábata. Listinn er birtur í skýrslu hópsins, Vegaframkvæmdir – Leiðir til fjármögnunar, sem gerð var opinber var í apríl.

Við val á mögulegum flýtiverkefnum voru fyrst skoðuð þau verkefni sem Vegagerðin telur nauðsynlegt að fara í á næstu 25 árum, en fram kemur í skýrslu starfshópsins að þannig hafi fengist mjög langur listi með tæplega 200 verkefnum og kostnaði yfir 400 milljörðum króna. Því ákvað hópurinn að skoða eingöngu þau verkefni sem tilheyra grunnneti samgangna eða stofnvegina. Þannig voru eftir um 80 verkefni sem forgangsraðað var meðal annars eftir fjölda banaslysa, fjölda slysa með miklum meiðslum og meðalumferð á dag árið 2017.

Miðað við aðferðarfræði skýrsluhöfunda eru einungis tveir kaflar Reykjanesbrautar auk kafla á Grindavíkurvegi sem komast á kortið sem mögulegar flýtiframkvæmdir sem kæmu Suðurnesjum til góða, en það eru kaflar á Reykjanesbraut frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni, Reykjanesbraut frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á Grindavíkurvegi frá Bláalónsvegi að Grindavík.

Kort sem sýnir mögulegar flýtiframkvæmdir að mati starfshópsins:

Þá leggja skýrsluhöfundar til tímaramma fyrir umræddar flýtiframkvæmdir. Ef farið yrði eftir þeim tímaramma  myndu framkvæmdir fyrst hefjast við Grindavíkurveg og tvöföldun Reykjanesbrautar að Hvassahrauni árið 2022 og við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum að Flugstöð árið 2024.

Tafla sem sýnir mögulegan tímaramma og kostnað við flýtiframkvæmdir:

Rétt er að taka fram að í skýrslunni kemur fram að fleiri verkefni gætu komið til greina sem flýtiverkefni á öðrum forsendum, svo sem byggðarlegum. Þá er rétt að taka fram að hluti þess sem skýrsluhöfundar leggja til stangast á við gildandi samgönguáætlun.