Nýjast á Local Suðurnes

Rútuferðir frá FLE til Akureyrar frestast vegna tafa við uppsetningu á bókunarvélum

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Beinar áætlunarferðir Gray Line milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar sem upphaflega var áformað að hefja þann 3. apríl munu hefjast sunnudaginn 17. apríl næstkomandi, en fresta þurfti fyrstu ferðunum vegna óvæntra tafa við innleiðingu á nýrri bókunarvél á netinu.

Lúxusrútur úr flota Gray Line annast ferðirnar, þær eru búnar salernum og veitingaaðstöðu ásamt internetteningu. Tveir bílstjórar verða ávallt með í för til að tryggja gæði þjónustunnar. Í apríl og maí verður ekið þrisvar í viku en daglega yfir sumarið fram í miðjan september.

Á leiðinni milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar verður stoppað fyrir farþega í Borgarnesi, Staðarskála, Blönduósi og Varmahlíð. Eingöngu verður stoppað á viðkomandi stöðum ef farþegi hefur bókað far á vefsíðu Gray Line eða á sölustöðum fyrirtækisins. Ávallt verður að bóka far fyrirfram.

Áætlun Gray Line Airport Express er uppbyggð þannig að flugfarþegar sem koma til landsins síðdegis komast norður í land fyrir miðnætti og farþegar að norðan komast beint í morgunflug.