Nýjast á Local Suðurnes

Árni var vanhæfur í styrkveitingu til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Árni Sigfússon - Mynd: Rúv

Árni Sigfússon, þáverandi formaður ráðgjafanefndar Orkusjóðs, var vanhæfur þegar sjóðurinn styrkti verkefni á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um tæpar fimm milljónir króna, en Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvarinnar er bróðir Árna. Þetta kemur fram í áliti Umboðsmanns Alþingis, sem birt var á dögunum og greint er frá í Kjarnanum.

Í álitinu segir meðal annars: „Umboðsmaður tók fram að hæfisreglur stjórnsýslulaga ættu við um hæfi nefndarmanna ráðgjafarnefndar Orkusjóðs þegar nefndin gerir tillögur til ráðherra um lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði. Þar sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefði sótt um styrk úr sjóðnum og fyrirsvarsmaður hennar væri bróðir formanns ráðgjafarnefndarinnar væri formaðurinn tengdur fyrirsvarsmanni aðila málsins í skilningi reglnanna og nefndarmaður í þeirri stöðu teldist vanhæfur.”

Það var fyrirtækið Valorka sem kvartaði til Umboðsmanns Alþingis en fyrirtækið sótti um styrk til Orkusjóðs en fékk ekki. Orkusjóður er í eigu ríkisins og er hlutverk hans að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða sem miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.